Ákæra embættis sérstaks saksóknara á hendur fyrrv. Kaupþingsstjórum verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag í næstu viku.

Við þingfestinguna verða næstu skref í málinu orðið skýrari, m.a. hvenær aðalmeðferð málsins verður. Óvíst er hvenær hún getur hafist og hugsanlegt að nokkur skref verði tekin áður en aðalmeðferð hefst. Ekki mun útilokað að eftir þingfestingu verði tekinn svokallaður greinargerðarfrestur. Eftir að greinargerðir hafa svo verið lagðar fram getur dómurinn ákveðið að milliskref og aðalmeðferð því dregist. Að því undanskildu þarf að koma aðalmeðferðinni á dagskrá héraðsdóms.

Gætu átt allt að sex ára dóm yfir höfði sér

Hreiðar Már, fyrrverandi forstjóri Kaupþings-samstæðunnar, Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson, einn af stærstu hluthöfum bankans og löngum kenndur við skipaflutningafélagið Samskip, voru kærðir fyrir hálfum mánuði fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, yfirhylmingu, peningaþvætti í tengslum við kaup sjeiksins Al-Thani á fimm prósenta hlut í Kaupþingi fyrir tæpa 26 milljarða króna nokkrum dögum áður en bankinn á hliðina haustið 2008.

Venjuleg refsing við brotum sem þessum er fangelsi allt að tveimur árum. Hins vegar má þyngja refsinguna ef sakir eru mjög miklar í allt að sex ár. Flókin lánaflétta í tengslum við kaup Al-Thanis á hlutnum í bankanum er rakin í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar kemur m.a. fram að bankinn lánaði félögum Al-Thanis og Ólafs hvoru um sig 12,8 milljarða króna. Bæði félögin lánuðu féð áfram til annarra félaga sem síðan færðu féð til félagsins Q Iceland Finance, sem var í eigu fjárfestisins.