*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 4. júní 2019 08:33

Kaupþingsmenn fá 2.000 evrur hver

Mannréttindadómstóllinn dæmir Árna Kolbeinsson vanhæfan til að dæma í Al-Thani málinu vegna sonar síns.

Ritstjórn
Stjórnendur Kaupþings við þingfestingu Al Thani málsins í héraðsdómi.
Haraldur Guðjónsson

Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Al-Thani málinu, gegn helstu stjórnendum Kaupþings, er sú að í helstu atriðum hafi málsmeðferð íslenskra dómstóla verið með eðlilegum hætti og að söfnun upplýsinga við rannsókn málsins hafi ekki brotið á réttindum hinna ásökuð.

Hins vegar efast dómstóllinn um hlutdrægni eins dómarans, Árna Kolbeinssonar, því sonur hans hafi unnið fyrir bankann bæði fyrir og eftir að hann féll.

Stjórnendur Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, voru sakfelldir í bæði héraði og hæstarétti, en skutu málinu til Mannréttindadómstólsins á fyrrnefndri forsendu um son eins dómarans, sem og að eiginkona eins hæstaréttardómarans hefði verið starfsmaður Fjármálaeftirlitsins.

Í annan stað byggðu Kaupþingsmenn vísunina til dómstólsins á því að brotið hafi verið á rétti þeirra til að hafa uppi varnir í málinu þar sem þeim hafi ekki verið veittur nægur tími til að undirbúa málsvörnina. Þá telja þeir einnig að hleranir ríkisins á símtölum þeirra við verjendur hafi ekki verið í samræmi við réttindi þau sem Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir þó ekki hafi verið byggt á símtölunum við sakfellinguna.

Í báðum tilvikum úrskurðaði dómstóllinn eins og áður segir að ekki hafi verið brotið á réttindum þeirra við meðferð málsins. Hins vegar dæmdi Evrópudómstóllinn hverjum einum sakborninga í málinu 2.000 evrur í miskabætur, eða sem samsvarar 280 þúsund krónum, til að standa straum af málskostnaði.

Málið snerist um fjárfestingu meðlims í konungsfjölskyldu Quatar, Sheik Mohammed bin Khalifa Al Thani, í bankanum í september 2008, sem fjármagnað var með láni úr bankanum sjálfum, sem ekki höfðu verið veitt með lögformlegum hætti.