Gengi hlutabréfa bresku tískuvöruverslunarkeðjunnar Moss Bross hækkaði um rúmlega 12% í morgun vegna orðróms um að Baugur sé að undirbúa kauptilboð í félagið.

Gengið hafði hækkað um 12,5% í 74,25 pens á hlut um ellefu leytið í morgun og samkvæmt því er markaðsvirði félagsins um 69 milljónir punda, eða um 9,7 milljarðar króna. Gengi bréfanna hefur fallið um 30% síðustu sex mánuði.

Sérfræðingur hjá breska verðbréfafyrirtækinu Seymour Pierce telur að ef Baugur geri kauptilboð í fyrirtækið verði það á bilinu 85-90 pens á hlut.

Breska blaðið The Daily Telegraph hefur eftir heimildarmanni sínum að kauptilboð í Moss Bros frá Baugi sé væntanlegt fyrir lok janúar og fullyrðir heimildarmaðurinn að kauptilboð verði gert í félagið.

Unity-fjárfestingasjóðurinn, sem er í eigu Baugs, FL Group og Kevin Stanford, heldur utan um 28,2% í Moss Bros, en auk þess á Stanford, sem stofnaði meðal annars Karen Millen-verslunarkeðjuna, sjálfur um 6,5%.