Stjórn RÚV hefur móttekið kauptilboð í lóð og húsnæði félagsins við Efstaleiti. Ekki fæst uppgefið um kaupverðið eða hver sé tilboðsgjafinn. Þetta kemur fram á fréttavef Kjarnans.

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvort gengið verði að tilboðinu en slíkt verður ekki gert fyrr en í fyrsta lagi eftir að ákvörðun um hvort útvarpshúsið verði yfir höfuð selt hafi verið tekin. Fjöldi félaga hefur sýnt kaupum á húsinu áhuga en borgarráð Reykjavíkur samþykkti um miðjan október endurskipulagningu á lóð útvarpshússins undir íbúabyggð. Verður í því skyni efnt til skipulagssamkeppni á lóðinni í samstarfi við RÚV.

Myndi gjörbreyta skuldastöðu RÚV

Fram kemur að verðmæti lóð og útvarsphúss sé metið á 4-5 milljarða króna, en hærra verð gæti þó fengist fyrir.

Sala á þessum eignum gæti haft veruleg áhrif á skuldastöðu RÚV, sem er sérlega slæm. Vaxtaberandi skuldir eru um 5,5 milljarðar króna sem skýrist að mestu leyti af lífeyrissjóðsskuldbindingum. Útvarsstjóri hefur lýst því yfir að sala eigna komi til greina til að rétta af skuldastöðu félagsins.