Í dag var undirritað kauptilboð á milli Regins og eigenda fasteignafélagsins U6 um kaup Regins á öllu hlutafé í félaginu. Kauptilboðið er meðal annars með fyrirvörum um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar .

Kaupin miðast við heildarvirði eignasafn félagsins sé 2.700 milljónir króna. Einnig er vænt að arðsemi fjárfestingarinnar fyrir árið 2017 er um 6,7%.

„Fasteignasafnið samanstendur af tveimur fasteignum, Urðarhvarfi 6 og Víkurhvarfi 8 í Kópavogi. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins er 10.290 fermetrar, að stærstum hluta skrifstofuhúsnæði. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er 100% og eru núverandi leigutekjur um 224 m.kr. á ársgrundvelli. Leigutakar eru þrír og þar af er Mannvit hf., stærsti leigutakinn með langtímaleigusamning. Ef af kaupunum verður stækkar eignasafn Regins um rúm 3% miðað við fermetrafjölda,“ segir meðal annars í tilkynningunni.