Fjárfestingafélagið FL Group er eina félagið sem greiningardeild Glitnis sér kauptækifæri í um þessar mundir því gengi annarra félaga á markaði eru um eða yfir sex mánaða markgengisspá. Kauptækifæri myndast, að mati greiningardeildarinnar, ef hún telur að gengi félags muni hækka umfram 10% til ársloka.

Markgengi greiningardeildarinnar á FL Group er 33 krónur á hlut en við lok markaðar í gær var gengi fjárfestingafélagsins 29,9 krónur á hlut, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. "Við teljum að talsvert svigrúm sé til hækkunar á bréfum félagsins vegna þess að við teljum að eignasafnið muni vaxa á síðari hluta ársins," segir í afkomuspá greiningardeildarinnar sem birtist í byrjun mánaðar.

"Teljum við að Glitnir Banki muni hækka í 32,0 í lok ársins og stýrir það að stórum hluta þróun á verði bréfa í FL Group," segir í afkomuspánni. Gengi Glitnis var 30,55 við lok markaðar í gær. "Þess ber þó að geta að aðrar óskráðar eignir félagsins geta skilað verulegum hagnaði þegar fram í sækir ss. Refresco sem hefur keypt og sameinað fjóra smærri framleiðendur á árinu."

Greiningardeild Kaupþings metur tólf mánaða markgengi FL Group á 31,7 krónur á hlut og ráðgjöf til fjárfesta er hlutlaus, í verðmati sem birtist 4. júní. Greiningardeild Landsbankans metur tólf mánaða markgengi FL Group á 28,9 krónur á hlut og ráðgjöf til fjárfesta er "minnka", að því er fram kemur í verðmati frá 31. maí.

Á þriðja fjórðungi hækkaði FL Group um 1% en það sem af er ári nemur hækkun 24,27%. Á fjórðungunum hefur fjárfestingarfélagið Atorka Group hækkað mest eða um 19,6%, fjárfestingafélagið Exista hefur hækkað um 16,1% og Kaupþing hefur hækkað um 13,4%, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Glitnis.