Í skýrslu Morgan Stanley um skuldabréf íslensku bankanna erlendis kemur fram að það sé skoðun greiningadeildar fyrirtækisins að skuldabréfamarkaðurinn hafi brugðist of harkalega við þeirri áhættu sem íslensku bankarnir eru sagðir standa frammi fyrir, segir greiningardeild Glitnis.

Frá því um miðjan dag í gær hefur vaxtaálagið á skuldabréf bankanna erlendis verið að lækka og viðskipti með þau verið mikil. Það er merki um að fjárfestar sjái tækifæri í bréfunum á þeim kjörum sem í boði eru, segir greiningardeildin.

Með hliðsjón af vaxtamun milli mynta og verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta má ætla að íslenskir fjárfestar gætu tryggt sér skuldabréf íslensku bankanna á um og yfir 5% ávöxtunarkröfu verðtryggðra bréfa eða um og yfir 10% ávöxtunarkröfu óverðtryggðra bréfa, segir greiningardeildin.

Þetta eru mun betri kjör en undanfarið hafa boðist á innlendum skuldabréfamarkaði í sambærilegum bréfum eða bréfum sem bankarnir gefa út hér heima.

Greiningardeild Glitnis segir að í skýrslunni sé sagt að viðskipti með bréf í bönkunum séu nú á grundvelli gróusagna og aðdróttana fremur en grundvallarþáttum í starfsemi þessara fyrirtækja.

Það eru líkleg áhrif á markaði þar sem viðskipti með bréfin eru hlutfallslega lítil og flokkar margir.