Greiningardeild Glitnis bendir á að hlutabréfaverð hafi lækkað í Evrópu, eins og víðast hvar annars staðar, og segir greiningardeildin að fjárfestar virðast hafa metið sem svo að gott kauptækifæri hafi myndast í kjölfar þeirra lækkunar sem komin var fram.

?Hlutabréfaverð er nokkru lægra en fyrir mánuði og því ættu enn að finnast þar góð tækifæri. Fyrirtæki hafa verið að skila góðum uppgjörum og sem dæmi má nefna að tæplega 80% fyrirtækja í Stoxx 50 hlutabréfavísitölunni skiluðu meiri hagnaði en spár gerðu ráð fyrir," segir greiningardeildin.

Glitnir segir hlutfallið hærra en það hefur verið að undanförnu. Spár um afkomu fyrirtækja í Stoxx 600 vísitölunni hafa verið uppfærðar og gera þær ráð fyrir meiri vexti hagnaðar á árinu en fyrri spár, eða 11%.

Það er nokkru minni vöxtur en í fyrra þegar hann var 24% sem var mjög gott ár. Almennt virðast fjárfestar í Evrópu vera bjartsýnir og gera ráð fyrir að V/H hlutföll fyrirtækja í Stoxx 600 lækki frá því sem nú er og að horfur um afkomutölur fari batnandi á komandi mánuðum.

Greiningardeild Glitnis segir að helst er talið að horfur í efnahagsmálum geti dregið úr afkomu fyrirtækja í Evrópu á komandi mánuðum. Í síðustu viku lækkaði OECD hagvaxtarspá sína fyrir heiminn á næsta ári úr 3,1% í 2,9%, aðallega vegna hærri fjármagnskostnaðar.

Á evrusvæðinu er þess vænst að evrópski seðlabankinn muni hækka vexti að minnsta kosti tvisvar í viðbót á árinu, úr 2,5% í 3%, og í Bandaríkjunum er þess vænst að bandaríski seðlabankinn muni hækka vexti einu sinni í viðbót í 5,25% en stýrivextir vestra eru nú 5%.