Actavis Group tilkynnti í dag að kaupum á samheitalyfjastarfsemi alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alpharma væri formlega lokið. Samkeppnisyfirvöld hafa samþykkt kaupin og er Actavis þar með orðið eitt af fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að áður hafði Actavis keypt bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Amide Pharmaceuticals í New Jersey í júlí síðatliðnum og hefur nú öðlast sterka stöðu á bandaríska samheitalyfjamarkaðnum.

Þess er vænst að á árinu 2006 verði sala á markaðnum yfir þriðjungur af heildarsölu samstæðunnar. Þá verður Actavis einnig með sterka markaðsstöðu fyrir eigin vörumerki á stærstu mörkuðum í Evrópu, þ.e. í Þýskalandi og Bretlandi ásamt Skandinavíu, Hollandi og Portúgal.

Sameinað félag verður með yfir 200 lyf í þróun og skráningu og er þess vænst að það leggi inn a.m.k. 30 umsóknir um markaðsleyfi í Bandaríkjunum á næsta ári. Þá mun Actavis við kaupin taka yfir verksmiðjur í Bandaríkjunum sem eru með vottun frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna til viðbótar við verksmiðjur sem í Bretlandi, Noregi, Kína og Indónesíu.

Eftir stækkun Actavis verður heildarframleiðslugeta félagsins yfir 24 milljarðar taflna og hylkja á ári. Gert er ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar nemi um 1,3 milljörðum evra á árinu 2006 og að hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) í hlutfalli af veltu verði um 19-20%.

Í kjölfar kaupanna munu Alpharma og Amide taka upp nafn Actavis á öllum mörkuðum félagsins.

Kaupverð Actavis á samheitalyfjahluta Alpharma nam 810 milljónum Bandaríkjadala.

?Með kaupunum á Alpharma verður Actavis komið í hóp fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Félagið er nú komið með góða markaðstöðu í Bandaríkjunum og á helstu mörkuðum í Evrópu. Í krafti stærðar sinnar, er félagið vel undirbúið fyrir áframhaldandi mikla samkeppni á erlendum mörkuðum og í stakk búið til að ná vaxtarmarkmiðum sínum," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, um kaupin.