Íslendingar virðast minnka við sig í fataverslun hérlendis en auka við sig í skóverslun á sama tíma. Þetta kemur fram í tölum sem Rannsóknarsetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst birti í dag.

Fataverslun dróst saman um 13,1% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 9,5% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði velta fataverslunar í apríl um 6,8% frá sama mánuði í fyrra. Velta skóverslunar jókst hins vegar um 7,6% í apríl á föstu verðlagi og um 14,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð fyrir ári. Verð á skóm hækkaði um 6,1% frá apríl í fyrra.

Í tölum rannsóknarsetursins kemur einnig fram að sala áfengis dróst saman um 8,2%% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 3,9% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis í apríl um 4,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 4,6% hærra í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.