Glitnir hefur lokið við kaup á 50,1% hlutafjár í UNION Group ASA í Noregi. UNION Group verður hluti af samstæðureikningi Glitnis frá 1. janúar 2006, segir í tilkynningu. Glitnir skrifaði undir samninginn um kaupin þann 3. mars en þá hét bankinn Íslandsbanki.

Union Group er stærsti og leiðandi aðili í sölu, ráðgjöf og samsetningu viðskipta með atvinnuhúsnæði í Noregi. Union Group útvegar einnig fjármögnun frá þriðja aðila og rekur sjóði, með áherslu á atvinnuhúsnæði og fyrirtækjaráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta.

Rekstrartekjur Union Group voru um 160 milljónir norskra króna árið 2005 og nam hagnaður fyrir skatta og hlutdeild minnihluta 90 milljónum norskra króna. Union Group samanstendur af Union Næringsmegling AS, Union Corporate ASA, Union Eiendomskapital AS, Union Real Estate AS og Union Marine Finance AS. Íslandsbanki hefur rétt til að kaupa þá hluti sem eftir standa á fimm ára tímabili, og eigendur minnihlutans í Union hafa rétt til að selja þá hluti sem eftir standa til Íslandsbanka á sama tímabili.

?Kaup Glitnis á 50,1% hlutabréfa í UNION styrkja stöðu bankans á sviði fjármögnunar og ráðgjafar í viðskiptum með atvinnuhúsnæði, fyrirtækjaráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta og rekstri sjóða með áherslu á atvinnuhúsnæði auk viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi,? segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, í tilkynningu. ?Með samþættingu UNION við Glitni ásamt BNbank, Glitnir Bank, Glitnir Securities og Glitnir Factoring nær bankinn sterkri stöðu í fasteigna- og fyrirtækjaviðskiptum. Union hefur gengið vel og skilað góðri afkomu og framundan eru mörg spennandi tækifæri.?

Fjármálaeftirlit í Noregi og á Íslandi hafa veitt Glitni banka formlegt samþykki fyrir kaupunum á meirihluta í UNION Group.