Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe Europe AB hefur samþykkt kaup á 51% hlut í breska flugfélaginu Astraeus kaupverðið og hljóðar upp á sex milljónir punda (790 milljónir króna), segir í frétt Dow Jones.

Viðskiptablaðið greindi frá þessu fyrr í morgun.

49% hlutur er í eigu Aberdeen Asset Management og stjórn flugfélagsins.

Finn Thaulow, nýr forstjóri FlyMe, segir að mikil samlegðaráhrif séu hjá flugfélögunum, þannig nýtist flugvélafloti félaganna betur á ársgrundvelli.

Aðalstarfsemi Astraeus er á Gatwick flugvellinum og eru farþegar flugfélagsins um 800.000 á ári. Tekjur félagsins eru um 11,4 milljarðar króna á ári og á félagið tíu Boeing farþegaþotur.

Fons, sem stjórnað er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, er stærsti hluthafinn í FlyMe með rúmlega 20% eignarhlut.