Kaupverð Berjaya samsteypunnar á 75% hlut í Icelandair Hotels hótelkeðjunni, og tengdum fasteignum, mun nema um 6,7 milljörðum króna miðað við núverandi fjárhagsstöðu félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem malasíska samsteypan sendi kauphöllinni þar í landi í fyrrakvöld og Fréttablaðið greindi frá í morgun .

Í tilkynningu Icelandair Group, seljanda hótelkeðjunnar, til hinnar íslensku kauphallar á laugardag, var heildarvirði hótelkeðjunnar og tengdra fasteigna sagt 17,1 milljarður króna.

Uppgefið kaupverð í tilkynningu Berjaya er sagt miðast við stöðu veltufjármuna keðjunnar og vaxtaberandi skulda hennar, sem eru 8 milljarðar króna í dag. Þróun þessara stærða fram að áramótum mun svo ákvarða endanlegt kaupverð.

Þá kom einnig fram í tilkynningu Icelandair til kauphallarinnar hér að nýtt hótel sem rís nú á Landssímareitnum svokallaða muni ekki fylgja með í kaupunum.