Kaupverð N1 á Festi, sem rekur meðal annars Krónuna og er næst stærsta smásölukeðja landsins, er ríflega 20% hærra en verð Haga á markaði, ef tekið er mið af hefðbundinni verðkennitölu. Þetta benda sérfræðingar Capacent á en Fréttablaðið fjallar um.

Capacent bendir á að samkvæmt nýju verðmati þeirra á Högum sé félagið verulega undirverðlagt. Þó var verðmatið unnið áður en Costco opnaði verslun sína á Íslandi og því er gert ráð fyrir því að verðmat Haga lækki eftir annan ársfjórðung þessa árs. N1 tilkynnti um kaupin á Festum fyrr í mánuðinum og nemur kaupverðið 8.750 milljónum króna og er heildarvirði félagsins metið á 37.900 milljónir króna. EBIDTA Festar er áætlaður 3.340 milljónir króna árið 2016.

Í viðbrögðum Capacent er enn fremur bent á að EV/EBIDTA-hlutfall, það er rekstrarhagnaður sem hlutfall af heildarvirði, fyrir Festi sé 11,3 ef miðað er við uppgefið kaupverð á félaginu, eins og Viðskiptablaðið hefur áður bent á. Sama hlutfall hjá Högum er hins vegar 9,3, sem þýðir að kaupverð Festar er talsvert hærra en núverandi markaðsverð Haga.