Nýherji hf. undirritaði í dag samning um kaup á fyrirtækinu Dansupport A/S í Óðinsvéum í Danmörku. Dansupport er þjónustufyrirtæki sérhæft í uppsetningu á tölvu-, samskipta- og símakerfum fyrir meðalstór fyrirtæki. Helstu samstarfsaðilar Dansupport eru IBM, Avaya, Cisco og Microsoft í Danmörku. Kaupverðið er 190 milljónir króna segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Nýherji hefur á undanförnum misserum annast fjölmörg verkefni erlendis við uppsetningu á síma- og tölvukerfum og hafa íslenskir starfsmenn annast þau verkefni. Þá hefur Nýherji haft tvo fasta starfsmenn í Danmörku á liðnu ári og munu þeir nú hefja störf hjá Dansupport A/S.


Tekjur Dansupport á liðnu ári voru um 340 milljó króna og var EBITDA um 9 %. Kaupverðið er 190 milljónir króna og verður það fjármagnað að hluta með lánsfé, en annars með eigin fjármögnun. Gert ráð fyrir að kaupin á Dansupport hafi óveruleg áhrif á afkomu Nýherja á yfirstandandi ári, því áhersla verður lögð á áframhaldandi vöxt þess í Danmörku.


Dansupport hóf upphaflega starfsemi í Óðinsvéum árið 1987 og eru starfsmenn þess nú um 30 reyndir ráðgjafar og tæknimenn. Dansupport veitir þjónustu á sviði tækni- og rekstrarþjónustu upplýsingatæknikerfa, uppsetningu og rekstur símkerfa auk hýsingarþjónustu. Nýlega opnaði félagið skrifstofu í Kolding til að þjóna viðskiptavinum á Jótlandi. Á næstunni verður einnig opnuð skrifstofa í Kaupmannahöfn, þar sem áhersla verður lögð á að þjóna viðskiptavinum í Kaupmannahöfn og annars staðar á Sjálandi.

Framkvæmdastjóri Dansupport er Kenneth Rossau og mun hann verða tæknilegur framkvæmdastjóri á öllum starfsstöðum félagsins frá 1. júlí. Við stöðu framkvæmdastjóra tekur Claus Falk, en hann hefur á liðnum sjö árum gegnt stöðu framkvæmdastjóra Eltel Networks Telecom A/S í Kaupmannahöfn. Claus Falk er með háskólagráðu í verkfræði- og viðskiptafræði frá Háskólanum í Álaborg og hefur starfað á sviði upplýsingatækni frá árinu 1990. Þá hefur Rasmus Maahr verið ráðinn sem fjármálastjóri Dansupport, en hann var áður fjármálastjóri hjá Eltel Networks Telecom A/S og endurskoðandi hjá KPMG í Danmörku.

Kaupin á Dansupport eru í samræmi við þá stefnu Nýherja að auka starfsemi samstæðunnar erlendis. Í október 2005 keypti Nýherji öll hlutabréf í fyrirtækinu AppliCon A/S, sem er sérhæft í ráðgjöf og þjónustu við SAP hugbúnað
og hafa síðan verið stofnuð AppliCon fyrirtæki í London og Stokkhólmi.

Starfsmenn Nýherjasamstæðunnar verða eftir kaupin um 420 og þar af um 110 starfandi erlendis.