Facebook hefur fengið grænt ljós frá Samkeppnisstofnun Bandaríkjanna (e. US Federal Trade Commission) vegna kaupanna á myndaforritinu Instragram. Facebook er því skrefi nær því að ganga endanlega frá kaupunum.

Facebook tilkynnti um kaupin í apríl og var þá sagt að kaupverðið væri um einn milljarður Bandaríkjadala, um 120 milljarðar íslenskra króna. 70% af kaupverðinu var aftur á móti fólgin í hlutabréfum Facebook og því hefur kaupverðið falllið niður 747 milljónir Bandaríkjadala eftir að Facebook var skráð á markað.

Ekki hefur komið fram hvenær endanlega verður gengið frá kaupunum. Forsvarsmenn Facebook tilkynntu að vonir stæðu til að hægt væri að ganga frá þeim fyrir árslok 2012.