KB banki og HB Grandi hafa undirritað samning um fjármögnun upp á allt að 1.800 milljónir króna vegna kaupa og breytinga á fjölveiðiskipi félagsins. HB Grandi undirritaði samning um kaup á fjölveiðiskipinu í byrjun mánaðarins en félagið mun nota skipið til veiða og vinnslu uppsjávarfisks. Skipið var smíðað á Spáni árið 1994. Það er 7805 brúttótonn, 105 metrar á lengd og 20 metrar á breidd. Um borð er fiskimjölsverksmiðja sem afkastar um 150 tonnum af hráefni á sólarhring. Skipið verður það langstærsta í íslenska flotanum.

Tilgangur HB Granda með kaupunum er að auka vinnslugetu sína á uppsjávarfiski til manneldis, sérstaklega á síld, loðnu og kolmunna. Hingað til hefur félagið að mestu unnið þessar tegundir í fiskimjöl og lýsi. Kaupverð skipsins er rúmlega 14 milljónir Bandaríkjadala (um 900 milljónir króna). Útgerðin þarf ennfremur að leggja í verulegan kostnað vegna umfangsmikilla breytinga á vinnslubúnaði skipsins. KB banki mun bæði fjármagna kaupin og breytingar sem gerðar verða á skipinu. Gert er ráð fyrir að skipið komi til landsins í byrjun næsta árs og hefji veiðar á vormánuðum.