Á hluthafafundi KB banka í gær var samþykkt að heimila hækkun hlutafjár um 1.100 milljónir króna að nafnvirði með áskrift allt að 110 þúsund nýrra hluta. Hluthafar skulu eiga forgangsrétt til að skrá sig fyrir nýjum hlutum í félaginu í réttu hlutfalli við hlutaeign sína. Heimild þessi er veitt stjórn í tengslum við kaup félagsins á öllum útgefnum hlutum í FI-Holding, sem á danska bankann FIH.

Engar hömlur verða á viðskiptum með hina nýju hluti. Þeir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi þeirrar hækkunar sem þeir tilheyra. Stjórn félagsins skal ákveða útboðsgengi, greiðsluskilmála og í hvaða áföngum heimildin verður nýtt. Heimildin skal standa til 10. janúar 2006 að því marki sem hún hefur ekki verið nýtt fyrir þann dag. Hinir nýju hlutir skulu vera í sama flokki og með sömu réttindi og aðrir hlutir í félaginu.