KB banki hefur ákveðið að hækka vexti óverðtryggðra og verðtryggðra inn-og útlána frá og með 1. apríl. Vaxtabreytingin er gerð í kjölfar tilkynningar Seðlabankans um hækkun stýrivaxta um 0,75 prósentustig, segir í tilkynningu bankans.

Einnig hefur verið ákveðið að hækka fasta vexti KB Íbúðalána frá og með morgundeginum, 31. mars 2006. Vextir KB Íbúðalána verða eftir hækkunina 4,60%. Þar sem vextir KB Íbúðalána eru fastir allan lánstímann hefur þessi breyting engin áhrif á kjör þeirra fjölmörgu sem þegar hafa tekið KB Íbúðalán.

Helsta ástæða fyrir því að bankinn hækkar nú vexti á íbúðalánum er hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkistryggðra skuldabréfa á markaði að undanförnu.

Vextir óverðtryggðra innlána hækka á bilinu 0,50 til 0,75 prósentustig, mismunandi eftir innlánsformum. Þannig hækka vextir Kostabókar og Markaðsreiknings um 0,75 prósentustig og verða þeir á bilinu 7,00% til 10,15%.

Vextir óverðtryggðra útlána hækka um 0,75 prósentustig.

Vextir á verðtryggðum inn- og útlánum hækka um 0,05 til 0,10 prósentustig.