KB banki þarf, líkt og önnur skráð félög í evrópskum kauphöllum, að samræma reikningsskil sín, frá og með reikningsárinu sem hófst þann 1. janúar 2005, við alþjóðlega reikningsskila-staðla (IFRS), samþykkta af Evrópuráðinu, sem tóku gildi 1. janúar 2005.

Í tilkynningu frá bankanum segir að ítarlegri upplýsingar verði birtar í ársskýrslu bankans, sem verður gefin út í byrjun mars. Þær fjárhæðir sem eru uppgefnar hér hafa ekki verið endurskoðaðar og gætu því breyst.

Innleiðing alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna (IFRS) leiðir til talsverðra breytinga í reikningsskilum bankans og í framsetningu á rekstrar- og efnahagsreikningi. Þá munu skýringar í reikningum bankans verða ítarlegri en áður. Hins vegar munu þær breytingar sem verða á mati á eignum og skuldum hafa óveruleg áhrif á eigið fé bankans, heildar eignir og eiginfjárhlutfall bankans (CAD-hlutfall). Þá munu breytingarnar hafa óveruleg áhrif á hagnað bankans og þar með hagnað á hlut.

Innleiðing IFRS mun jafnframt hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans og áhættu hjá bankanum og breytingin hefur engin áhrif á sjóðstreymi.

Breytingar á eigin fé

Heildarlækkun á eigin fé vegna innleiðingar IFRS er áætluð um 73 milljónir króna, þ.e. lækkun eigin fjár er óveruleg frá fyrri reikningsskilareglum. Eigið fé þann 1. janúar 2005 verður því eftir breytinguna 149,4 milljarðar króna.