Kaupþing Búnaðarbanki hf. (KB banki) hefur undirritað samkomulag við Swedbank (FöreningsSparbanken) um kaup á öllum útgefnum hlutum í FI-Holding sem á danska bankann FIH. Kaupverðið nemur 84 milljörðum króna (? 1,0 ma.), auk vaxta frá 31.mars þar til gengið verður endanlega frá kaupunum. Starfsemi FIH fellur vel að starfsemi KB banka. Við kaupin mun stærð KB banka tvöfaldast og verður bankinn með leiðandi stöðu í fyrirtækjalánum í Danmörku.

Kaupin verða fjármögnuð með útgáfu víkjandi lána og hækkun hlutafjár til forgangsréttarhafa. Umfram eigið fé í FIH verður greitt til seljanda fyrir lokauppgjör alls 28 ma.ISK (? 320 milljónir). Hluthafar sem ráða yfir 52% eignarhlut í KB banka hafa lýst yfir stuðningi við kaupin og munu taka þátt í hlutafjárhækkuninni. Gert er ráð fyrir að stjórn bankans leggi til að gengi í hlutafjáraukningunni taki mið af núverandi markaðsgengi.

FIH sérhæfir sig í fjármögnun fyrirtækja í Danmörku af öllum stærðargráðum. Stjórnendur FIH, sem búa yfir mikilli reynslu, hafa byggt upp 17% hlutdeild á danska fyrirtækjalánamarkaðnum. Viðskiptavinir bankans, sem eru um fimm þúsund talsins, eru fjölbreyttir, allt frá smáum fyrirtækjum upp í stórar fyrirtækjasamstæður. FIH er jafnframt fjárhagslega sterkur banki og sögulega hefur bankinn verið með hlutfallslega lágar afskriftir útlána.

KB banki er norrænn banki sem hefur vaxið ört á undanförnum árum. Kaupin á FIH eru í samræmi við þá stefnu bankans að efla fyrirtækjaþjónustu bankans og að styrkja enn frekar stöðu bankans á Norðurlöndum.

Með kaupunum skapast ýmis vaxtartækifæri, svo sem í fyrirtækjaráðgjöf, fjármögnun í tengslum við yfirtökur og fjárfestingar í óskráðum félögum. Þá skapast jafnframt tækifæri til að bjóða hinum fjölbreytta viðskiptamannahópi FIH ýmsar af hinum fjölmörgu afurðum KB banka. Hvorki er fyrirhugað að gera breytingar á stjórnendahópi FIH né heldur á vörumerki bankans. Þá eru jafnframt engar skipulagsbreytingar fyrirhugaðar á rekstri FIH.

Á pro forma grunni munu heildareignir KB banka aukast við kaupin úr 601 milljarði króna (? 6,9 ma.) í 1.470 ma.kr. (?15,9 ma.). Hagnaður eftir skatta árið 2003 eykst úr 7.520 milljónum (? 86,4 milljónir) í 14.163 milljónir (? 162,8 milljónir) og hagnaður á fyrsta ársfjórðungi 2004 fer úr 2.650 milljónum (?30,5 milljónir) í 4.816 milljónir (?55,4 milljónir). Kaupin munu hafa umtalsverð áhrif á hagnað á hlut. Markmið samstæðunnar eftir kaupin er að eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) verði hærra en 11,0% og að eiginfjárhlutfall A verði 8,0% eða hærra.

Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður KB banka:

?Þetta er tímamótasamningur fyrir KB banka. Þessi kaup eru í fullu samræmi við stefnu bankans. FIH hefur sterka stöðu á dönskum fyrirtækjalánamarkaði og kaupin færa okkur nær því markmiði okkar að vera leiðandi fjárfestingarbanki á Norðurlöndum. Okkur er ljóst að núverandi stjórnendur FIH hafa gegnt lykilhlutverki í velgengni bankans og við ætlum okkur að vinna með þeim að frekari vexti í framtíðinni."

Lars Johansen, framkvæmdastjóri FIH:

?Það er okkur mikið tilhlökkunarefni að starfa innan KB banka sem hefur undanfarin ár sýnt vilja og getu til þess að ná markmiði sínu um að verða leiðandi fjárfestingarbanki á Norðurlöndum á sama tíma og bankinn hefur haft þarfir viðskiptavina sinna í fyrirrúmi. Ég er sannfærð um að viðskiptavinum okkar og starfsmönnum þykji þessi nýja staða jafn spennandi og mér.

Skilyrði

Kaupin eru háð eftirfarandi skilyrðum:

- Samþykki hluthafafundar hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

- Samþykki Fjármálaeftirlitsins í Danmörku, samkvæmt dönskum lögum um fjármálastarfsemi (Lov om Finansiel Virksomhed).

- Samþykki Fjármálaeftirlitsins á Íslandi í samræmi við 39. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Gert er ráð fyrir að gengið verði endanlega frá kaupunum í september.