Þrjú íslensk félög birta uppgjör sín fyrir 2. ársfjórðung í vikunni en þau eru KB banki, Landsbankinn og Bakkavör. KB banki birtir sitt uppgjör á miðvikudag og hin tvö félögin fylgja síðan í kjölfarið daginn eftir.

Þess má geta að fjögur félög eru í yfirvogun hjá greiningardeild Landsbankans og eru Kaupþing og Bakkavör bæði meðal þeirra. Greiningardeild Landsbankans bendir á að KB banki hefur skilað methagnaði undanfarna fjórðunga en greiningardeildin telur að uppgjör annars fjórðungs nái ekki að slá fyrri met. Engu að síður má búast við góðu uppgjöri sem þeir telja að mæti arðsemismarkmiði bankans.

Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að hagnaður á öðrum ársfjórðungi dragist saman um 31% frá sama tímabili í fyrra. Ástæðuna má rekja til áætlaðs taps hjá FL Group, Straumi-Burðarás og TM og er að mestu tilkomið vegna gengistaps af hlutabréfastöðu. Fyrir árið í heild spáir greiningardeildin 16% hagnaðaraukningu.