Verðmæti Íslandsbanka er 107,3 ma.kr. miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundavallar í verðmati Greiningardeildar KB banka. Verðmatið skiptist í þrjá hluta þar sem bankastarfsemi og vátryggingastarfsemi er aðskilin og metin í sitthvoru lagi auk þess sem eignarhlutir bankans í Kredittbanken og BNbank í Noregi eru metnir sérstaklega. Starfsemi Íslandsbanka í bankarekstri er metin á 77,7 ma.kr. og vegur sá hluti um 72,4% af heildarupphæð verðmatsins. Virði vátryggingastarfsemi er metið á tæplega 16,1 ma.kr. (15,0%) og virði eignarhluta í norsku bönkunum tveim er samtals metið á um 13,5 milljarða króna (12,6%).

Niðurstaða verðmatsins gefur verðmatsgengið 9,65 sem er 14,6% lægra en lokagengi hlutabréfa bankans 20. desember síðastliðinn. Þar er miðað við að fjöldi útistandandi hluta sé 11.118 milljónir eins og fram kom í útboðs- skráningarlýsingu bankans sem gefin var út 15. desember síðastliðinn. Greiningardeild KB banka mælir með sölu á hlutabréfum Íslandsbanka en fyrir vel dreifð eignasöfn sem taka mið af íslenskum hlutabréfamarkaði er mælt með markaðsvogun á hlutabréfum bankans.