Greiningardeild KB banka spáir 0,75% hækkun vísitölu neysluverðs í apríl en vísitalan hækkaði um 0,2% í apríl á síðastliðnu ári. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga fara úr 4,5% upp í 5%.

Greiningardeild gerir ráð fyrir um 4% hækkun á verði fatnaðar vegna útsöluloka í mánuðinum sem mun hafa 0,2% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Miðað er við um 5% hækkun á eldsneytisverði í mánuðinum sem mun leiða til 0,25% hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Gert er ráð fyrir um 0,5 til 1% hækkun á matvælaverði sem mun hafa um 0,1% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Samkvæmt Fasteignamati ríkisins hækkaði fasteignaverð um 2% í síðasta mánuði og hefur hækkað um 0,5% að meðaltali síðastliðna 3 mánuði. Greiningardeild gerir ráð fyrir hækkun húsnæðisverðs muni hafa 0,12% áhrif á vísitölu neysluverðs.