Kaupþing Búnaðarbanki hf. hefur stofnsett sérhæft eignastýringarfyrirtæki New Bond Street Asset Management LLP (NBS) í Lundúnum í samvinnu við hóp reyndra sérfræðinga. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins verður Zoe Shaw, fyrrum framkvæmdastjóri skuldafjármögnunardeildar Bankgesellschaft Berlin (BGB) og annar framkvæmdastjóra Lundúnaútibús bankans. Jorgen Mandal, fyrrum yfirmaður Norðurlandadeildar BGB, sem tók þátt í stofnun NBS, verður yfirmaður eignastýringar NBS.

Starfsemi NBS mun í fyrstu felast í að byggja upp sérhæft skuldabréfa- og lánasafn fyrir Kaupþing Búnaðarbanka. Auk þess stefnir félagið að því að stýra sérhæfðum sjóðum fyrir þriðja aðlila. NBS mun eiga viðskipti með traust skuldabréf og skuldabréfaafleiður einstakra ríkja, fjármálastofnana og fyrirtækja með hátt lánshæfismat, auk veðlána. Eignasafninu verður dreift með tilliti til einstakra skuldara, atvinnugreina og landa. Stefnt er að því að NBS verði með tvo milljarða evra í stýringu innan tveggja ára.

Kaupþing Búnaðarbanki hefur mikla reynslu í stýringu alþjóðlegra sjóða á Norðurlöndunum og í Luxemborg, þar sem að bankinn hefur starfað frá árinu 1998. Sérhæfð sjóðastýring NBS mun bæta traustum erlendum skuldabréfum við núverandi eignasafn Kaupþings Búnaðarbanka sem samanstendur af hlutabréfum og íslenskum skuldabréfum.

"Það er ánægjulegt að koma á fót þessarri nýju eignastýringu í Bretlandi. Þetta er áhugaverð viðbót við eignastýringu bankans og mun styrkja okkur frekar á breska markaðnum," segir Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður Kaupþings Búnaðarbanka í tilkynningu frá félaginu.

"Okkur er sönn ánægja að vinna með Kaupþingi Búnaðarbanka við stofnun þessa fyrirtækis. Við teljum að með því að bjóða upp á mjög áhættudreifðan kost sem þennan séum við að brúa bilið milli hefðbundinna skuldabréfasjóða og sérhæfðrar skuldastýringar," segir Zoe Shaw, framkvæmdastjóri NBS í tilkynningunni.