KB banki veitti í gær 30 aðilum styrki úr Menningar- og styrktarsjóði bankans sem nema samtals 21,5 milljónum króna. Tvisvar á ári er styrkjum úthlutað úr sjóðnum en hann var stofnaður árið 1999 og hefur með síðustu úthlutun látið fé af hendi rakna til hátt á þriðja hundrað verkefna. Þessi verkefni hafa jafnt tengst menningu og listum sem líknar- og mannúðarmálum, menntun, vísindum, tækni og umhverfismálum.

Að meðaltali berast bankanum hátt í tíu erindi á dag þar sem leitað er eftir stuðningi við margvísleg málefni. Reynt er að koma til móts við sem flesta enda þótt ógjörningur sé að verða við óskum allra.

KB banki telur mikilvægt að styðja við góð verk og örva jafnframt frumkvæði einstaklinga og félagasamtaka í landinu. Á hverju ári njóta líknarfélög, íþróttafélög og menningarstarf auk verkefna sem beinast að uppgræðslu landsins styrkja frá KB banka. Með þessu vill bankinn leggja sitt af mörkum til mannræktar og landræktar á Íslandi. Bankinn hefur einnig til nokkurs tíma átt samstarf við Krabbameinsfélag Íslands, Styrktarfélag vangefinna, Golfsamband Íslands, Knattspyrnufélag Íslands og Skógræktarfélag Íslands svo fátt eitt sé nefnt.

Útrás KB banka undanfarin ár hefur verið mjög öflug. Bankinn rekur nú starfsemi í tíu löndum, skilgreinir Norðurlöndin sem heimamarkað sinn og ætlar sér umtalsverðan vöxt þar á næstu árum. Auknu afli KB banka er meðal annars ætlað að bæta þjónustu og lækka verð til viðskiptavina hans á Íslandi. Sterkari efnhagur og bætt afkoma gefur bankanum einnig tækifæri til aukins stuðnings við lífið í landinu.