Belgíski bankinn KBC hefur keypt 75% hlut í búlgarska bankanum EIbank fyrir 296 milljónir evra að því er kemur fram í tilkynningu bankans til búlgörsku kauphallarinnar í gær. Þegar litið er til eigna er EIbank níundi stærsti banki Búlgaríu.

Samningur þessa efnis var undirritaður af stjórnarformanni bankans Tsvetelina Borislavova og Björgólfi Thor Björgólfssyni forstjóra Novator en þau voru stærstu hluthafar bankans. Undirritunin átti sér stað síðastliðin þriðjudag.

Þessir tveir aðilar áttu meirihluta hlutafjár en Tsvetelina Borislavova mun halda 22,3% hlut í hinum nýja banka og verða samstarfsaðili KBC í framtíðinni eins og segir í fréttatilkynningu.  Belgíski bankinn hyggst í framhaldinu gera tilboð til smærri hluthafa sem fara með 2,7% hlutafjár.

Viðskipti voru stöðvuð á föstudag með bréf EIbank og var þá gengi bréfa félagsins 139,11 levur á hlut en þau höfðu farið hæst í 148,23  levur á hlut í síðustu viku í kjölfar vangaveltna um yfirtöku. Miðað við hæsta verð hlutabréfa var markaðsvirði bankans 495,9 milljónir evra en söluverð hans nú er 393 milljónir evra.

Kaupin eiga enn eftir að fá samþykki búlgarskra yfirvalda en að því er kemur fram í frétt Sofia News Agency er ólíklegt að þau setji sig á móti sölunni þar sem KBC er ekki fyrir á markaðinum. KBC samþykkti fyrr á árinu að kaupa 70% hlut í búlgarsa tryggingafélaginu DZI og hækkaði hlutfallið upp í 85% skömmu síðar og vinnur nú að yfirtöku félagsins.

Með sölunni á EIbank, DZI og áður BTC hefur búlgarska kauphöllinn misst um það bil 20% af markaðsvirði skráðra félaga en öll félögin verða afskráð úr kauphöllinni.

Björgólfur Thor átti 48% í EIbank við söluna í gegnum Novator en hann eignaðist fyrst 34% hlut í bankanum fyrir tveimur árum, nánartiltekið í september 2005. Talið er að Novator innleysi um það bil 12 milljarða króna hagnað með sölunni.