KEA er hætt við byggingu á hóteli við Hafnarstræti 80 og hefur skilað lóðinni til bæjaryfirvalda á Akureyri. Vikudagur greinir frá málinu.

Til stóð að byggja 150 herbergja hótel og leigja út. Áform um hótelbyggingar frestuðust eftir að vandræði Wow air gerðu vart við sig þar sem ekki fékkst fjármagn fyrir verkefninu lík og Viðskiptablaðið fjallaði um í vor . Nú hefur verið ákveðið að hætta alfarið við hótelið.

„Forsendur fyrir verkefninu hafa frá upphafi verið traustur hótelrekandi sem leigjandi og eðlileg lánsfjármögnun. Eins og mál hafa atvikast í ferðaþjónustunni á síðasta ári með falli WOW Air sem og aðstæðum á lánamarkaði að þá eru ekki forsendur fyrir því að hefja verkefnið á þessum tímapunkti,“ hefur Vikudagur eftir Halldóri Jóhannssyni framkvæmdastjóra KEA.

Þá hafi Akureyri ekki verið tilbúin að gefa KEA frekari frest til að hefja framkvæmdir. Töluverðum tíma og peningum hafi varið í undirbúning verkefnisins. KEA hafi haft áhuga á að fara í annars konar uppbyggingu á lóðinni með fleiri aðilum en ekki hafi verið áhugi hjá því innan Akureyrarbæjar.