Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar yfirtöku Keahótels ehf. á rekstri Sandhótels ehf. í Reykjavík annars vegar, og Hótels Kötlu í Mýrdalshreppi hins vegar, ásamt öllum eignum sem tengjast rekstrinum, á grundvelli leigusamninga.

Samruninn var tilkynntur með svokallaðri styttri samrunaskrá þann 18. maí 2018. Keahótel á og rekur alls átta hótel á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi. Sandhótel er staðsett í miðborg Reykjavíkur og Hótel Katla á Suðurlandi.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að ekki er ástæða til að ætla að samþjöppun á skilgreindum markaði þessa máls í kjölfar samrunans geti verið grundvöllur samkeppnisbresta. Þá er ekki ástæða til að ætla að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Að undangenginn rannsókn er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna.