Fjárfestingafélagið KEA á Akureyri keypti nýverið 12 milljóna króna Land Rover fyrir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóra félagsins. Hannes Karlsson, stjórnarformaður KEA, segir kaupin í samræmi við ráðningasamning við Halldór og sé nú verið að endurnýja fimm ára gamlan bíl sem hann hafi áður haft til afnota. Hannes segir framkvæmdastjórann greiða skatta af bílnum í samræmi við reglur um bifreiðahlunnindi.

Hann bendir á það í samtali við Akureyri vikublað , að félagssvæði KEA sé stórt og víðfemt og gott sé að aka um það á góðum og öruggum bíl. Þá tekur hann fram að bíllinn sem Halldór hafði áður haft afnot af hafi verið tekinn upp í þann nýja hjá BL. Hannes bætir því við að þótt mikil velta hafi ekki einkennt fjárfestingarfélög hér á landi á undanförnum árum þá sé eignastaða KEA sterk og afkoman þokkaleg.

Með 1,4 milljónir í mánaðarlaun

Félagsmenn KEA eru tæplega 18 þúsund talsins. Félagið hagnaðist um 160,6 milljónir króna árið 2011 samanborið við 101 milljón árið 2010. Það átti undir lok ársins 4,5 milljarða eignir og nam bókfært eigið fé 4,4 milljörðum króna. Fram kemur í ársreikningnum að Halldór hafði 17 milljónir króna í árslaun, rúmar 1,4 milljónir króna á mánuði.