Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA svf. á Akureyri, segir að þrátt fyrir áföll eigi KEA í dag handbært lausafé upp á rúmlega 2,5 milljarða og hafi fjárfestingargetu upp á um 3 milljarða króna. Lækkandi vaxtastig ýtir á umbreytingu eigna félagsins en nú sé verið að leita að fjárfestingartækifærum í traustum fyrirtækjum.

Halldór sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir helgi að fátt væri um fína fjárfestingardrætti en KEA hafi áhuga á aðkomu að fjármálastarfsemi á viðskiptabankasviði. Það gæti m.a. falist í því að kaupa útibú Byrs á Akureyri.

„Já, ég hef áður sagt það opinberlega að ef sú staða kemur upp þá sé það nokkuð sem við erum tilbúin að skoða. Við höfum haft áhuga á að efla fjármálaþjónustustarfsemi í eigu heimaaðila. Þannig komum við að stofnun Saga Capital á sínum tíma. Við höfum fjárfest í einum elsta sparisjóði landsins, Sparisjóði Höfðhverfinga hér úti á Grenivík, og eigum þar 35% stofnfjár. Við vorum á árinu 2008 búnir að kaupa öll stofnbréf í þeim sjóði en sá samningur ógiltist í bankahruninu. Áhugi okkar á þessum bransa hefur um nokkurt skeið verið töluverður. Hins vegar hefur okkur reynst erfitt að finna inngönguna inn á markaðinn. Bæði hefur þetta fall hér skapað erfiðleika og lagalega óvissu, m.a. um félagsform sparisjóða og almennt um rekstrarforsendur fjármálafyrirtækja.

Menn eru í tvígang búnir að breyta lögum um fjármálafyrirtæki og eru ekki hættir. Það er því ýmislegt sem menn verða að skoða áður en þeir stíga af fullum þunga inn í þetta umhverfi. Við teljum að svona fjárfesting sé mjög hentug og ákjósanleg fyrir KEA að því gefnu að öll skilyrði séu til staðar. Byr er í ákveðnu ferli og mikil óvissa um hvernig það endar allt saman. Við lýstum yfir áhuga á sínum tíma á kaupum þegar stofnfjáraðilar ákváðu að selja sína stofnfjárhluti til Byrs og þótti miður að komast ekki að því ferli þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Við teljum það mikilvægt að hér á svæðinu sé öflug staðbundin fjármálastofnun. Við upplifðum það á uppgangsárunum að fókus stóru bankanna var ekki mikið á það sem var að gerast hér úti á landi. Menn urðu því svolítið afskiptir og fundu þá fyrir mikilvægi þess að til staðar væri staðbundið fjármálaafl."