Fyrsta júní næstkomandi opna Keahótel nýtt hótel í Reykjavík. Hótelið, sem heitir Reykjavik Lights, er að Suðurlandsbraut 12 og er þriðja hótelið sem Keahótel reka í Reykjavík og það sjötta í heildinni. Hin hótelin í Reykjavík eru Hótel Borg og Hótel Björk.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að á Reykjavík Lights verði 105 herbergi, bar, fundarsalur og veitingastaður og yfirbyggð bílageymsla.

Í tilkynningunni er haft eftir Páli L. Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra og eins eigenda Keahótela að félagið hafi ekki viljað bara opna hótel, heldur koma með eitthvað alveg nýtt inn á markaðinn. Því hafi verið efnt til samkeppni um „concept“ og útfærslu á því fyrir hótelið og varð Reykjavik Lights fyrir valinu.

Tark arkitektar eru aðalhönnuðir hótelsins en Concept hönnunin kemur frá HAF.