Hæstiréttur hefur sýknað Keflavíkurverktaka af kröfum sem fyrrverandi forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. gerði á hendur félaginu vegna eftirlaunasamninga sem hann taldi að Keflavíkurverktakar hefðu yfirtekið við sameiningu félaganna. Krafan var upp á 96 milljónir króna með áföllum dráttarvöxtum. Rétturinn féllst þó á þrautavarakröfu forstjórans sem nam 7,4 milljónum króna.

Forstjórinn Jón Halldór Jónsson, sem var forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf., gerði árið 1986 eftirlaunasamning við félagið, þar sem gert var ráð fyrir að eftirlaun hans yrðu hundraðshluti af launum forstjóra félagsins eins og þau væru á hverjum tíma. Byggingaverktaka Keflavíkur hf., sameinaðist þremur öðrum félögum árið 1999 er mynduðu Keflavíkurverktaka hf. Skömmu síðar hóf Jón töku eftirlauna, sem miðuðust við þau laun, sem hann hafði haft sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf., en þau skyldu framvegis taka breytingum í samræmi við verðlagshækkanir.

Í kjölfar skipulagsbreytinga á rekstri Keflavíkurverktaka voru laun forstjóra félagsins lækkuð umtalsvert árið 2003 en eftirlaunagreiðslur til Jóns voru lækkaðar að sama skapi. Jón taldi að skerðingin hefði verið óheimil og krafði Keflavíkurverktaka um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar, sem hann taldi vera eingreiðsluverðmæti eftirlaunaréttar hans. Til vara krafðist hann fjárhæðar, sem tók mið af útreikningi á lækkun eftirlauna hans.

Í báðum tilvikum var gert ráð fyrir að með skerðingu eftirlaunanna hefðu eftirlaunakröfur Jóns fallið í gjalddaga. Ekki féllst Hæstiréttur á það enda lyti ágreiningur aðila að breytingu á fjárhæð eftirlauna, sem leiddi af túlkun Keflavíkurverktaka hf. á eftirlaunasamningnum. Til þrautavara krafðist Jón fjárhæðar, sem tók mið af mismun á þeim eftirlaunum, sem hann taldi sig eiga rétt til, og greiddra eftirlauna, auk viðurkenningar á því að eftirlaun hans skyldu framvegis taka mið af ákveðinni viðmiðun. Vísað var til þess að við framkvæmd samningsins frá 2000 til 2003 hefði Keflavíkurverktakar hf. ekki beitt hreinni eftirmannsreglu og ekki lægi annað fyrir en að Jón hefði verið sáttur við þá framkvæmd. Yrði að líta svo á að Keflavíkurverktakar hf. hefði orðið bundið af þeirri framkvæmd. Því var fallist á fjárkröfuna samkvæmt þrautavarakröfu en viðurkenningarkrafan þótti hins vegar of óákveðin og var vísað frá héraðsdómi.

Jón starfaði sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um árabil eins og áður sagði. Með stofnun Keflavíkurverktaka hf., sem samþykkt var á stofnfundi félagsins, 20. október 1999, sameinuðust Byggingaverktakar Keflavíkur ehf., Járniðnaðar- og pípulagningarverktakar Keflavíkur ehf., Málaraverktakar Keflavíkur ehf. og Rafmagnsverktakar Keflavíkur ehf. Félögin fjögur sem mynduðu Keflavíkurverktaka hf. voru lögð niður við stofnun þess félags.

Keflavíkurverktakar hf. yfirtóku þannig rekstur fjögurra annarra félaga og var reksturinn því allverulega umfangsmeiri en rekstur Byggingaverktaka Keflavíkur ehf. Í málflutningi kom fram að rekstur Byggingaverktaka Keflavíkurverktaka ehf. hafi verið um 60% af rekstri Keflavíkurverktaka hf. Nýr forstjóri stefnda Keflavíkurverktaka hf. var ráðinn 28. júní 1999, en þá var undirbúningur að stofnun félagsins vel á veg komin. Hinn nýi forstjóri, Steindór Guðmundsson, tók strax við 20% starfi, en kom til fullra starfa 1. september 1999. Umsamin laun hans voru 750.000 kr. á mánuði.