Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs hefur afráðið að hætta að auglýsa á miðlum Sýnar. Ástæðan er umræða um holdafar í útvarpsþættinum Zúúber á Bylgjunni. Segir í yfirlýsingu frá Keili að samkvæmt siðareglum Keilis ber í þeirra starfi að koma í veg fyrir að hvers kyns óréttlæti viðgangist. Því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

Orð sem féllu í þættinum hafa verið til umræðu undanfarið eftir að Sigríður Lund Hermannsdóttir, Sigga Lund, lét orð falla um tónlistarmanninn Valdimar Guðmundsson í þættinum síðasta föstudag.

„Mér finnst mjög leiðinlegt að nefna þetta. Ég held að margir hafi orðið varir við sína fitufordóma vegna þess að ég var það, þegar við lásum greinina um daginn um ákveðinn söngvara, sem á von á barni með kærustunni sinni. Mér finnst mjög leiðinlegt að tala um þetta en fyrsta hugsunin […] nú bara viðurkenni ég það og mér finnst það mjög leiðinlegt, mér fannst mjög leiðinlegt að komast að þessu um sjálfa mig, en fyrsta hugsunin […] út af því að hann er með aukakíló,“ sagði Sigríður.

Skemmst er frá því að segja að ummælin féllu í grýttan jarðveg og hefur þátturinn verið tekinn af dagskrá Bylgjunnar í kjölfarið.

„Garðurinn vex þar sem þú vökvar hann. Lítilsvirðing og smánun vegna holdafars er samfélagsmein og sorglegt að sjá hana koma frá fagaðilum í heilsurækt. Forvarnir, íhlutanir, rannsóknir og breyttur hugsunarháttur eru umtalsvert skilvirkari leiðir til þess að skila jákvæðum niðurstöðum í vegferð að almennt bættu heilsufari en að smætta þá sem falla ekki í ákveðið útlitslegt form,“ segir í yfirlýsingu Keilis en í upphafi hennar er tekið fram að ákvörðunin hafi verið tekin „í ljósi nýbirtra upplýsinga sem varða líkamssmánun og skeytingarleysi starfsmanna gagnvart umræðunni“.