Nýtt frumkvöðlasetur hefur opnað í Keili, undir nafninu Eldey. Frumkvöðlasetrið er staðsett í aðalbyggingu Keilis - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú í Reykjanesbæ. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Það er okkar reynsla að frumkvöðlasetur eru gríðarlegur stuðningur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þar fá þeir ráðgjöf og stuðning í samfélagi við aðra frumkvöðla, en það getur verið einmannalegt að vinna að eigin viðskiptahugmynd við eldhúsborðið heima," segir Dagný Maggýjar, verkefnastjóri hjá Heklunni sem hefur einnig yfirumsjón með umsóknum frumkvöðla í Eldey, í tilkynningunni.

„Frumkvöðlasetrið er rekið í samstarfi Keilis, Eignarhaldsfélags Suðurnesja og Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Aðstaðan í Eldey verður gjaldfráls fram til áramóta 2021 meðstuðningi frá Eignarhaldsfélaginu. Í Eldy býðst frumkvöðlum vinnuaðstaða í skapandi umhverfi og geta þeir jafnframt nýtt sér fundaraðstöðu, kaffistofu og setustofur í aðalbyggingu Keilis, auk þess sem aðgangur er að prent- og netþjónustu. Heklan mun jafnframt bjóða upp á ráðgjöf í frumkvöðlasetrinu og standa fyrir reglulegum fræðsluviðburðum og erindum,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að sækja um aðstöðuna á vef Heklunnar eða á heimasíðu frumkvöðlasetursins á www.eldey.org. Skilyrði þess að nýta aðstöðuna er að um nýsköpun sé að ræða og verðaumsóknir metnar af Heklunni sem mun jafnframt fylgja hugmyndum frumkvöðlanna áfram.