Gengið var frá samningum um kaup Reykjavíkurborgar á BSÍ og Keilugranda 1 í einu lagi, að sögn Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Kemur þetta fram í svari hans við nokkrum spurningum á spyr.is. Var hann m.a. spurður að því hvort rétt væri að Reykjavíkurborg hafi ekki fengið að kaupa BSÍ nema samþykkja einnig kaup á Keilugrandanum og svaraði Dagur því játandi.

Dagur segir þar að borgin hafi í áratug haft áhuga á að eignast lóðina við Keilugranda til að byggja þar upp íbúðir og nýta hluta lóðarinnar fyrir þarfir barna og unglinga í hverfinu. Dagur segir að fyrir Keilugranda 1 hafi borgin greitt um 240 milljónir króna. Þar af voru 60 milljónir í peningum og afgangurinn var greiddur með þremur eignum sem Dagur segir að hafi verið lengi á söluskrá hjá borginni.