Ekkert fékkst upp í 687 milljóna króna kröfur í þrotabú félagsins K2010 ehf. Félagið hét áður Keiluhöllin ehf. og var stofnað um rekstur Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð.

Tæpt ár er síðan annað félag tengt Keiluhallarrekstrinum fór í þrot með skiptalokum á félaginu Öskjuhlíð ehf. Öskjuhlíð ehf. átti á sínum tíma um 40% hlut í Keiluhöllinni á móti félaginu Aðhald ehf. Ekkert fékkst upp í kröfur við gjaldþrot og námu þær um 385 milljónum króna.

Forveri félagsins K2010, sem nú er farið í þrot, var Keiluhöllin ehf. Nafni félagsins var breytt árið 2010 en á sama tíma tók félagið Allir Saman ehf. upp nafnið Keiluhöllin ehf. Keiluhöllin ehf. hefur nú tekið yfir rekstur Keiluhallarinnar eftir þrot fyrrnefndra félaga. Öll eru fyrrnefnd félög, beint og óbeint, í eigu sömu eigendur.