Keldan ehf., sem á og rekur vefinn Keldan.is ásamt Dagatali Viðskiptalífsins hefur keypt Vaktarann af CLARA ehf. Um er að ræða kerfi sem býður  viðskiptavinum upp á þann möguleika að fylgjast sjálfvirkt með þjóðfélagsumræðunni eins og segir í tilækynningu frá Keldunni. Í dag nýta yfir 100 aðilar þjónustu hans á hverjum degi og geta þannig fylgst með þeim 6 þúsund fréttum, greinum og athugasemdum sem birtast daglega á netinu um fyrirtæki, vörumerki og einstaklinga á Íslandi. Núverandi viðskiptavinir Vaktarans muni ekki verða fyrir röskun á þjónustunni.

Keldan var opnuð á haustdögum 2009 og er einn mest sótti upplýsinga- og viðskiptavefur um íslenskt fjármála- og viðskiptalíf. „Með kaupum á Vaktaranum styður Keldan við markmið sín um upplýsingar og gagnsæi og eykur framboð á þjónustu til viðskiptavina sinna. Nú geta fyrirtæki jafnt sem einstaklingar fylgst betur með því sem skiptir þá máli, en aukið gagnsæi og aðgangur að upplýsingum er til þess fallin að  stuðla að vandaðri ákvarðanatöku í viðskiptum,“ segir Friðrik Guðmundsson framkvæmdastjóri Keldunnar um kaupin.

CLARA ehf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig í umræðugreiningu og hefur verið fjármagnað af innlendum sem erlendum fjárfestum. Á meðal viðskitpavina þess eru PlayStation, Final Fantasy, EVE Online og EverQuest en félagið hefur haslað sér völl í greiningu á samfélögum tölvuleikja.