Ný útgáfa af fjármálavefnum Keldunni er komin út, en þar er lögð aukin áhersla á dýpt í miðlun fjármálaupplýsinga, að því er segir í tilkynningu. Yfirlitssíður fyrir hluta- og skuldabréfamarkaði, gjaldmiðla, verðbréfasjóði og vísitölur eru nú hluti af markaðsvakt Keldunnar. Þá er hægt að skoða hvert hluta- og skuldabréf sérstaklega með tilliti til m.a. stærstu eigenda, fjárhagsupplýsinga og fjölmiðlaumfjöllunar.

Í tilkynningu Keldunnar er haft eftir Einari Oddssyni, vörustjóra Keldunnar, að hann hafi séð mikla aukningu í vefumferð Keldunnar síðustu mánuði og fjölgun áskrifenda. Notendur fylgist til dæmis meira með upplýsingum um séreignasparnað og svo hafi fjárhagsupplýsingar stærstu fyrirtækja landsins vakið athygli.