John Kelly, yfirmaður starfsliðs  Hvíta hússins, mun láta af störfum fyrir áramót ef marka má orð Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump segir að tilkynnt verði um starfslokin á næstu dögum að því er Financial Times greinir frá.

Kelly, sem er fyrrverandi hershöfðingi, hóf störf á síðasta ári og átti að koma skipulagi á starfið í Hvíta húsinu, sem þótti óvenju óskipulagt. Samstarf Kelly og Trump er þó talið hafa súrnað nokkuð, en stjórnunarstílar þeirra sagðir afar ólíkir. Þá var Kelly gefið að sök að hafa sagt Trump vera hálfvita í bók blaðamannsins Bob Woodward. CNN greindi frá því fyrir helgi að Trump og Kelly töluðust ekki lengur við og ljóst væri að Kelly væri á útleið.

Kelly einn fjölmargra sem átt hefur fremur stuttan starfsferil í stjórn Trump. Nýlega var Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, vikið frá störfum, nokkrum dögum eftir þingkosningar þar sem repúblikanar misstu meirihluta sinn í fulltrúadeildinni. Þá er Heather Nauert, sögð muni taka við starfi Nikki Haley, sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Haley sagði starfi sínu nokkuð óvænt lausu fyrir skömmu.

Trump var einnig virkur á Twitter um helgina. Þar sagði hann að Mike Pompeo, sem tók við stöðu utanríkisráðherra í apríl, væri að standa sig frábærlega. Rex Tillerson sem Trump vék þá frá störfum væri hins vegar latur og álíka vitlaus og steinn. Ummælin komu í kjölfar viðtals Tillerson á CBS þar sem hann gagnrýndi Trump, og sagði hann væri illa inn í málum og að forsetinn hafi viljað taka ákvarðanir sem ekki stæðust lög.