Fyrir utan ástandið í Japan á tíunda áratug nýliðinnar aldar þá má segja að verðhjöðnun hafi ekki verið vandamál í þróuðum hagkerfum frá því fyrir seinni heimsstyrjöld. Sú staðreynd ætti að vera fagnaðarefni í sjálfu sér þar sem flestir eru á því máli að af tvennu illu sé verðhjöðnun ógnvænlegri en nokkurn tíma verðbólga. Það er ekki síst óttinn við verðhjöðnun sem hefur fengið stefnusmiði bandaríska seðlabankans og Englandsbanka til þess að lýsa því yfir opinberlega að þeir muni beita öllum úrræðum til þess að koma í veg fyrir slíkt.

Um miðja viku lét Dan Kohn, aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, slík ummæli falla. Þau urðu til þess að væntingar jukust um að stýrivextir Vestanhafs verði jafnvel lækkaðir um 50 punkta í næsta mánuði en þeir eru í dag 1%. Jafnframt hefur birting fundargerðar síðasta vaxtaákvörðunarfundar Englandsbanka leitt í ljós að stefnusmiðir bankans íhuguðu á sínum tíma að lækka stýrivexti um meira en 200 punkta. Sem kunnugt er voru stýrivextirnir lækkaðir síðast um 150 punkta og eru nú 3%. Birting fundargerðarinnar hefur styrkt væntingar um að gripið verði til 100 punkta lækkunar í desember.

Fjandi sem allir vilja fæla frá

Á sama tíma má gera ráð fyrir að stýrivextir á evrusvæðinu muni einnig halda áfram að lækka á næstunni. Ljóst er að verðhjöðnun er fjandinn sem keppst er við að fæla frá um þessar mundir og vaxtalækkanir er hið hefðbundna meðal í þeim efnum. Miðað við ástandið í dag og afleiðingar þessara stýrivaxtalækkana á gjaldeyrismarkaði má velta fyrir sér hvort slíkt kunni að vekja upp annan fornan fjanda: Hið gamalkunna ráð einstakra þjóðríkja að vinna sig úr efnahagslægðum með gengisfellingum sem er ætlað að styrkja samkeppnisstöðu útflutningsiðnaðarins – „níðast á nágrannanum“ svo tilraun sé gerð til þess að íslenska hugtakið „beggar-thy-neighbor“.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .