Seðlabanki Íslands hefur ekki sett sig í samband við tryggingafélagið Allianz vegna breytinga á reglum um gjaldeyrishöft og kemur það því félaginu í opna skjöldu að setja eigi nýjar reglur sem feli í sér að greiðslur iðgjalda til erlendra tryggingafélaga verði ekki lengur heimilar. Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu.

Tilkynningin í heild sinni hljóðar svo:

„Í tilefni frétta um að Seðlabanki Íslands hyggist setja nýjar reglur sem feli í sér að greiðslur iðgjalda til erlendra tryggingafélaga verði ekki lengur heimilar þá vill Allianz taka fram að félagið hefur í einu og öllu unnið í samráði við og með leyfi Seðlabankans allt frá því að reglur um gjaldeyrishöft voru sett í nóvember 2008. Seðlabanki Íslands hefur ekki sett sig í samband við né tilkynnt félaginu um þessar breytingar á reglum um gjaldeyrishöft og því kemur það félaginu í opna skjöldu ef breyta eigi reglum eftir á.

Allianz mun óska eftir fundi með Seðlabankanum og FME til að fara yfir þessa nýju túlkun á reglum um gjaldeyrishöft með hagsmuni viðskiptavina Allianz að leiðarljósi.“