Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti hugmyndir sínar um stofnun varasjóðs ríkisins gegn alvarlegum hagsveiflum á ársfundi Landsvirkjunar sem fram fór í síðustu viku. Fram kom í máli hans að slíkur sjóður yrði settur á stofn með arðgreiðslum Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í ríkiseigu, en fram hefur komið að væntur arður af starfsemi Landsvirkjunar kann árlega að nema 15-20 milljörðum króna á næstu árum.

Bjarni segir að ljóst sé að íslenska ríkið muni ekki selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun í bráð þar sem ekki sé pólitísk samstaða um slíka sölu. Hins vegar þurfi þessar hugmyndir ekki að koma í veg fyrir einkavæðingu fyrirtækisins í framtíðinni.

„Ég hef áður viðrað þá hugmynd að við skoðuðum að lífeyrissjóðir gætu eignast hluti í Landsvirkjun í þeim tilgangi að létta á ríkisskuldum, en söluandvirði slíks eignarhlutar hefði líka getað skapað stofnframlag inn í sjóð sem þennan. Þar hefði verið um gríðarháar fjárhæðir að ræða þó ekki væri nema fyrir 10-20% hlut. Vilji menn í framtíðinni leysa til sín væntar framtíðararðgreiðslur, t.d. með sölu til lífeyrissjóðanna, og leggja inn í svona sjóð er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir það,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .