Það var Kaupþing sem hafði frumkvæði að viðræðum við Spron og þær viðræður eru á algeru frumstigi og of snemmt að álykta til hvaða niðurstöðu þær kunna að leiða.

Þetta sagði Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron, þegar hann kynnti uppgjör Spron og vék að hugsanlegri sameiningu Spron við Kaupþing.

Hann tók þó fram að ljóst væri að fjármálamarkaðurinn væri að breytast mjög mikið og eðlilegt væri að menn litu til aukins hagræðis og sameininga við þær erfiðu ðstæður sem nú ríki á mörkuðum.

„Við þurfum í sjálfu sér ekki að láta það koma okkur á óvart að aðrir aðilar á fjármálamarkaði hafi áhuga á Spron enda er þetta traust fyrirtæki,“ sagði Guðmundur og benti á að Spron væri með mjög traustan hóp starfsmanna og viðskiptavina og sambandið á milli þeirra væri eitt af meginverðmætum.

„Okkar hlutverk núna er að fara í slíkar viðræður og kanna hvort það sé einhver sá flötur á því að það muni skila fyrirtækinu sjálfu verðmætum og tryggi þá hagsmuni hluthafa, starfsmanna og viðskiptavina. Um það er of snemmt að álykta í augnablikinu en það er ætlunin að ganga hratt til verks því óvissa sem svona staða skapar er óþægileg.“