Ögmundur Jónasson, fráfarandi heilbrigðisráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það verði að koma í ljós í umræðum á Alþingi hver afstaða hans verði til væntanlegra breytingartillagna við Icesave-ríkisábyrgðina. Hann leggur áherslu á að hann hafi sagt af sér ráðherradómi vegna málsmeðferðarinnar í Icesave-málinu en ekki vegna efnislegs ágreinings.

Hann kveðst aðspurður ekki vera að veikja ríkisstjórnina með þessari ákvörðun sinni. Það komi maður í manns stað. „Ég hef lýst því yfir að ég styðji ríkisstjórnina og ég mun gera það," sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið í kvöld.

Þegar hann er spurður hvort hann hafi séð tillögur fjármálaráðuneytisins að breytingum á Icesave-ríkisábyrgðinni svarar hann: „Já, ég hef séð hugmyndir um það en málið er ekki frágengið - síðast er ég vissi."

Hvernig leist þér efnislega á hugmyndirnar? „Mér líst mjög vel á þær tilraunir sem hafðar eru uppi í fjármálaráðuneytinu um að bæta okkar stöðu miðað við mjög einstrengingslega afstöðu Breta og Hollendinga," segir hann.

Getur þú efnislega fellt þig við þær breytingar? „Ég mun bara taka þátt í umræðum um það á þinginu og meta það í ljósi framvindu málsins."

Hann vill ekki upplýsa nánar um breytingarnar.

Tók ákvörðunina einn

Ögmundur segir, spurður um aðdraganda umræddrar ákvörðunar, að á ríkisstjórnarfundi í gær hafi komið fram hjá forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að ríkisstjórnin yrði að tala einum rómi í Icesave-málinu. Samþykkja þyrfti málið áður en það færi aftur inn á þing.

„Eins og fram hefur komið hef ég hins vegar haft önnur sjónarmið í því máli en samráðherrar mínir," segir hann og heldur áfram. „Þegar það var ljóst að ríkisstjórnin gæti ekki búið við svo margraddaðan kór í þessu máli ákvað ég að víkja í stað þess að láta hana sprynga út af þessu."

Þegar hann er spurður hvort Steingrímur J. Sigfússon hafi einnig tekið undir það að ríkisstjórnin talaði einum rómi í þessu máli svarar Ögmundur: „Já."

Því hefur verið haldið fram í dag að þú sért með þessari ákvörðun að finna þér leið til að  þurfa ekki að takast á við niðurskurðinn framundan í heilbrigðismálum. Er eitthvað til í því? „Ef sú væri raunin  þá myndi ég segja frá því. Hvers vegna ætti ég ekki að tala hreint út í þeim efnum? Ég hef hingað til ekkert sérstaklega verið að liggja á skoðunum mínum. Alls ekki. Það breytir því þó ekki að ég tel valdboð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins [í niðurskurðinum - innsk. blm] ganga of langt."

Tókstu umrædda ákvörðun um að segja af þér ráðherradómi í samráði við einhverja flokksmenn? „Ég tók ákvörðunina bara sjálfur."

Ríkisráðsfundur á Bessastöðum hefur verið boðaður fyrir hádegi á morgun en á slíkum fundum fara ráðherraskipti fram.

Ekki hefur verið upplýst um, þegar þetta er skrifað, hver eftirmaður Ögmundar í ráðherrastól verður.

Fara eigi þverpólitíska leið

Ögmundur kynnti forystumönnum ríkisstjórnarinnar ákvörðun sína fyrir hádegi í dag. Síðdegis sendi hann frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í dag, 30. september 2009, gekk ég á fund forsætisráðherra og tilkynnti um afsögn mína sem ráðherra í ríkisstjórn. Ég hef verið þeirrar skoðunar að fara eigi hina þverpólitísku leið hvað Icesave málið varðar og að Alþingi eigi að fá það til umfjöllunar skuldbindingalaust, á því stigi sem það er nú sem á fyrri stigum. Innan ríkisstjórnarinnar er hins vegar eindreginn vilji til þess að afgreiða málið samhljóða þaðan áður en Alþingi fær það til umfjöllunar og í ljósi þess eindregna vilja tel ég farsælast að víkja úr ríkisstjórn.

Ég hef hins vegar alltaf litið svo á að líf ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar annarsvegar og Icesave-málið hins vegar séu tveir aðskildir hlutir. Ég lýsi því fullum stuðningi við ríkisstjórnina og mun sitja áfram á Alþingi sem þingmaður Vinstri grænna. "