Vaxandi áhyggjur af framboðsvanda (e. supply crunch) á olíumarkaðnum hefur valdið miklu um þær gríðarmiklu verðhækkanir sem orðið hafa á olíu undanfarnar vikur og mánuði.

Spákaupmenn hafa veðjað miklum fjárhæðum á að olíuverð muni haldast hátt næstu árin. Það veðmál byggist á þeirri forsendu að framboðið á olíumarkaðnum muni ekki halda í við aukna eftirspurn frá nýmarkaðsríkjum á borð við Kína og Indland.

Stærsta olíuútflutningsríki heims, Sádi-Arabía, hefur reynt að koma til móts við þessar áhyggjur -- nú síðast með því að auka olíuframleiðslu sína um 300 þúsund tunnur á dag -- en ráðamenn þess hafa engu að síður viðurkennt að um leið og núverandi olíuvinnsluverkefnum lýkur árið 2013, verði lítið svigrúm fyrir hendi til að auka framleiðslugetuna enn frekar. Flest önnur stór olíuframleiðsluríki glíma við sambærilegar aðstæður og Sádi-Arabía.

Á þessu er þó ein þýðingarmikil undantekning: Írak situr á um 10% af olíubirgðum heimsins á sama tíma og framleiðsla þess nemur aðeins um 2,5% af heildarframleiðslu á heimsmarkaði.

Í nýrri greiningu The Economist Intelligence Unit (EIU) er því haldið fram að Írak gæti hugsanlega leyst þann langtíma framboðsvanda sem nú er  á olíumarkaðnum. Það þarf hins vegar margt að færast í betra horf í Írak áður en að því getur orðið.

Þrjú stríð, 13 ára viðskiptabann og fimm ár af innanlandsátökum hefur lagt olíuiðnað landsins nánast í rúst. Ef sagan hefði leikið Íraka öðruvísi má leiða að því líkur að olíuframleiðslan í dag væri sambærileg og hjá Sádum, eða í kringum 9 milljónir tunna á dag.

Mikill óstöðugleiki hefur aftur á móti einkennt olíuframleiðsluna í Írak frá innrásinni árið 2003. Framleiðslan hefur á undanförnum fimm árum verið að meðaltali undir 2 milljónum tunna á dag -- en til samanburðar var hún 2,3 milljónir fyrir innrásina. Það var ekki fyrr en undir lok síðasta árs sem framleiðslan fór í fyrsta skipti umfram 2,3 milljónir tunna á dag.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .