Geir H. Haarde forsætisráðherra segir það koma til greina að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Þetta kom fram í viðtali Stöðvar 2 við Geir í kvöld.

„Ég held að við ættum að huga að því að breyta þessu aftur í fyrra horf. Þá þarf að breyta lögum um þessar stofnanir og reyna að sameina kraftana á þessum vettvangi, þannig að þeir nýtist sem best," sagði Geir.

Hann vísaði síðan í ræðu Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra frá því í morgun en þar sagði sá síðarnefndi m.a. að það kynnu að hafa verið mikil mistök að færa fjármálaeftirlit undan Seðlabankanum. Það var gert með lögum árið 1998 í forsætisráðherratíð Davíðs og fólst í því að bankaeftirlit var tekið undan seðlabankanum.

Sameining þýddi breytingu á yfirstjórn SÍ og FME

Ekki kom fram í viðtalinu við Geir í kvöld hvort hann hygðist láta verða af því að sameina Seðlabankann og FME og þá hvenær. Ljóst er þó að slík sameining hefði í för með sér breytingu á yfirstjórn stofnananna.