Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir vel koma til greina að skipa sérstakt ráðuneyti dómsmála og færa málefni dóms- og ákæurvalds varanlega frá innanríkisráðuneytinu.

Í samtali við RÚV í dag segir Bjarni að ef ráðist yrði í slíkar breytingar þá yrði það ekki sem bein afleiðing lekamálsins, heldur sem kerfisbreyting til þess að tryggja málaflokknum athygli og svigrúm.

Eins og fram kom á föstudag hefur Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, verið ákærður í lekamálinu og hefur hann verið leystur frá störfum. Jafnframt hefur Hanna Birna beðist lausnar frá málefnum dóms- og ákæruvalds á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Hanna Birna hefur lýst þeirri skoðun sinni að dómsmál eigi ekki heima undir fagráðuneytum. Bjarni segir að legið hafi fyrir að fjölgun gæti orðið í ríkisstjórninni og bendir á að ekki sé óalgengt að breytingar séu gerðar á stjórnarráðinu á miðju kjörtímabili.