„Það eru fá hótel sem fólk ákveður að heimsækja sérstaklega. Flestir velja fyrst áfangastað til að heimsækja og svo hótel til að gista á. En við höfum fengið gesti sem komu sérstaklega til Íslands til að gista á hótelinu,“ segir Sigurlaug Sverrisdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri ION Lxury Adventure Hótel við Nesjavallavirkjun. Þetta er fjögurra stjörnu lúxushótel á Nesjavöllum sem var opnað snemma árs 2013.

ION hótel hefur fengið góða kynningu og mikla umfjöllun erlendis í blöðum eins og Hauser, breska Vogue, Elle, Le Point, Wallpaper, Independent og New York Times. Einnig hefur hótelið hlotið tíu alþjóðleg verðlaun á einu og hálfu ári. Spurð hvaða áhrif þessi umfjöllun og verðlaun hafa á reksturinn segir Sigurlaug umfjöllunina hafa náð að styrkja uppbyggingu rekstursins og að verðlaunin hafi mjög góð áhrif á ímynd staðarins og viðskipti.

Sigurlaug segir ferðahegðun fólks hafa breyst töluvert undanfarin ár. „Í dag er fleira fólk að leita eftir upplifun og einhverju sem það hefur ekki áður gert, jafnvel ögrandi upplifun. Þess vegna held ég að Ísland sé svona vinsælt. Fólk er að átta sig á því að við eigum svo mikið af óspilltri, orkumikilli náttúru sem hægt er að klífa, hjóla, labba, skoða og njóta. Hér er einstakt landslag, fegurð og orka sem skilar sér vel á netmiðlum, í ljósmyndum og á instagram. Ég held að ferðamannastraumur til Íslands haldi áfram að dafna svo lengi sem við vinnum markvisst að bættri þjónustu ferðamanna. Ég held því að Ísland verði sterkt næstu árin.

Rætt er ítarlega við Sigurlaugu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .