Kennarar hjá ríkisreknum framhaldsskólum skrifuðu undir nýjan kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun. Um tíma stóð til að undirrita samninginn í gær en það frestaðist.

Forsagan er sú að í lok febrúar höfnuðu kennarar í ríkisreknum framhaldsskólum og Tækniskólanum nýju vinnumati. Vinnumatið var skilgreindur hluti af kjarasamningnum, sem undirritaður hafði verið í apríl í fyrra  eftir að kennarar höfðu verið í þriggja vikna verkfalli. Þar sem kennarar höfnuðu vinnumatinu urðu samningar lausir á ný.

Nú hafa aðilar sem sagt náð saman um nýtt vinnumat og í framhaldinu munu kennarar kjósa um þetta nýja vinnumat. Kennarar og samninganefnd ríkisins höfðu fundað stíft síðan á laugardaginn.